Hreyflakrísa truflar ekki Play

Airbus þotur Play eru ekki með hreyfla frá Pratt&Whitney. MYND: ÓJ

Það verkefni bíður nú flugvirkja víða um heim að bæta úr göllum á einni tegund Pratt&Whitney hreyfla sem aðallega eru settir á Airbus A320 þotur. Gert er ráð fyrir að 350 flugvélar af þessari tegund verði innkallaðar á hverju ári fram til 2026 og hver viðgerð taki í það minnsta 250 daga.

Í flota Play eru tíu Airbus A320 og A321 þotur en engin þeirra er með hreyfla frá Pratt&Whitney að sögn Birgis Olgeirssonar, upplýsingafulltrúa Play. Félagið verður því ekki fyrir skakkaföllum vegna þessa öfugt við hátt í 40 flugfélög sem nú þurfa að gera ráð fyrir minni flugflota næstu ár vegna málsins.

Af þessum sökum er yfirvofandi umtalsverður skortur á mjóþotum næstu ár eins og Túristi hefur áður farið yfir sem gæti með óbeinum hætti komið niður á Icelandair og líka Play.