Tesla-eigendur lentir utangarðs

Tesla af gerðinni Model 3. MYND: TESLA

Nú eru þrjár vikur liðnar frá því að starfsfólk á verkstæðum Tesla í Svíþjóð lagði niður störf. Það krefst þess að vinnuveitandinn skrifi undir kjarasamning en bandaríski bílaframleiðandinn vill lítið hafa saman að sælda með stéttarfélögum. Hvorki í Svíþjóð né annars staðar.

Fjöldi starfsmanna Tesla tekur heldur ekki þátt í vinnustöðvuninni. Deilan fer því harðnandi og í dag hefjast víðtæk samúðarverkföll. Þar með stöðvast uppskipun á Tesla í sænskum höfnum, rafvirkjar hætta að þjónusta hleðslustöðvar fyrirtækisins og lakkverkstæði taka ekki lengur við Tesla bílum.

Eigendur ökutækjanna taka þetta ástand nærri sér. „Við flokkumst sem eins konar utangarðsfólk,“ segir Tibor Blomhäll, formaður Tesla klúbbsins í Svíþjóð, í viðtali við Svenska dagbladet.

„Við höfum fullum skilning á þeim aðgerðum sem nú beinast að Tesla. Það er aftur á móti áhyggjuefni að forsvarsfólk stéttarfélaga setji samansemmerki milli fyrirtækisins Tesla og eigenda bílanna.“

Vísar formaður Tesla klúbbsins til þess að nú sér orðið erfitt fyrir félagsmenn að fara með bílana sína á verkstæði því margir neiti að taka við við þeim.

Í Svíþjóð seljast að jafnaði um 2 þúsund Tesla bílar í mánuði.