Tvö flugfélög draga úr Íslandsflugi eftir áramót

Flugáætlanir taka oft breytingum með stuttum fyrirvara og skrifast það þá oftar en ekki á eftirspurn.

Icelandair og Play eru langstærstu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli. MYND: ISAVIA

Fjöldi erlendra flugfélaga heldur úti áætlunarferðum til Íslands allt árið um kring en nærri öll fækka brottförunum yfir vetrarmánuðina þegar fólk er síður á ferðinni. Nú hafa stjórnendur tveggja félaga ákveðið að draga ennþá meira úr framboði á flugi hingað en áður hafði verið gefið út.

Ferðum SAS til Íslands frá Ósló og Kaupmannahöfn, fyrstu þrjá mánuði næsta árs, hefur þannig verið fækkað niður í 58 sem er nærri helmings fækkun frá því í sama tíma í ár samkvæmt ferðagögnum Túrista. Félagið hafði áður gert ráð fyrir að Íslandsflugið í vetur yrði í föstum skorðum.

Það sama má segja um stöðuna hjá Airbaltic því nú hefur það félag tekið úr sölu tvær af hverjum þremur ferðum sínum til Keflavíkurflugvallar frá Riga í Lettlandi á fyrsta fjórðungi næsta árs. Í stað þess að bjóða upp á þrjár ferðir í viku að jafnaði þá verða aðeins í boði stakar brottfarir í janúar og mars en engin í febrúar.

Airbaltic er eina flugfélagið sem heldur úti áætlunarflugi hingað frá höfuðborg Lettlands en SAS er í samkeppni á báðum sínum leiðum til Íslands. Í Kaupmannahöfn eru bæði Icelandair og Play keppinautar SAS um farþega á leið til og frá Íslandi en í Ósló eru það Icelandair og Norwegian. Það síðastnefnda hefur hins vegar dregið verulega úr flugi hingað til lands eins og Túristi fór nýverið yfir. Það stefnir því í að Icelandair verði nærri eitt um flugið milli Íslands og Óslóar fyrstu mánuði næsta árs.