Verslun dregst saman í Bretlandi

Smásöluverslun í Bretlandi hefur ekki verið minni í tvö ár. Búist hafði verið uppsveiflu en breskir neytendur neyðast til að draga úr innkaupum vegna verðhækkana.

Jólaverslun í Oxford Street MYND: Unsplash/Dmitry Vechorko

Tölur frá bresku hagstofunni sýna að smásöluverslunin hefur ekki verið minni frá því í febrúar 2021. Í október dróst verslunin saman um 0,3 prósent frá mánuðinum á undan. Búist hafði verið hlutfallslega jafn mikilli aukningu. Financial Times segir þetta lýsa þeim þrengingum sem bresk heimili standa frammi fyrir í aðdraganda þess að fjármálaráðherrann Jeremy Hunt flytur skýrslu sína um stöðu breskra fjármála á þinginu í næstu viku.

Lægri sölutölur verslunarinnar í Bretlandi í október eru vísbending um að jólaverslun verði dauflegri en kaupmenn höfðu vonast eftir. Verslun í október síðastliðinn var 2,7 prósentum minni en í sama mánuði í fyrra, sem er hlutfallslega miklu meiri samdráttur en búist hafði verið við á árinu í heild. Því hafði verið spáð að fólk myndi kaupa færri hluti en dýrari og að það myndi leiða til 1,5 prósenta samdráttar. Síðustu vísbendingar um þróun verslunar gefa til kynna að hætta sé á nýrri efnahagslægð í Bretlandi.

Verðbólga í Bretlandi lækkaði umtalsvert í október, eða niður í 4,6 prósent, sem er sú lægsta í tvö ár. Ástæðan var lækkun á orkukostnaði. Hinsvegar er verð á almennum neysluvörum fimmtungi hærra en það var snemma árs 2021.

Verslanir sem selja föt og hluti til heimilishalds fengu færri viðskiptavini en vonast var eftir í október og er bent á fjárhagsþrengingar fólks og færri verslunarferðir vegna leiðinlegs veðurs sem helstu skýringar. Fataverslun minnkaði um nærri eitt prósent í þeim hlýindum og vætutíð sem einkennt hefur haustið. Færri en venjulega huga að kaupum á vetrarflíkum. Þá hafa húsgagnakaup minnkað snarlega. Kaupmenn í Bretlandi verða því að finna ný ráð til að lokka til sín viðskiptavini fyrir jólin.