Tvær af stærstu ferðaskrifstofum landins, Heimsferðir og Úrval-Útsýn, hafa hætt við ferðir sínar til Gran Canaria og Tenerife í desember og janúar vegna ástandsins sem Covid-19 hefur valdið. Hjá ferðaskrifstofunni VITA er hins vegar ætlunin að fljúga til spænsku eyjanna í desember og janúar.

VITA býður því upp á tvær ferðir til Tenerife yfir hátíðarnar. Annars vegar frá 21. desember og fram til 2. janúar og hins vegar 22. desember til 5. janúar.

Til Gran Canaria er ein brottför á boðstólum og verður lagt í hann þann 22.desember og komið heim 4. janúar.

Þráinn Vigfússson, framkvæmdastjóri VITA, segir í svari til Túrista að vonast sé til að hægt verði að fjölga ferðunum frá og með febrúar og vera þá með tvö flug í viku til Tenerife og vikulegt til Gran Canaria.